Keppendalisti Byrjenda- og lágmarkamóts

Byrjenda- og lágmarkamót í kraftlyftingum verður haldið þann 4. mars í Íþróttamiðstöð Njarðvíkur í umsjá UMFN Massa. Þar munu byrjendur stíga sín fyrstu skref á keppnispallinum sem og reyndari keppendur freista þess að ná lágmörkum til þátttöku á alþjóðamótum.

Keppendalisti mótsins liggur nú fyrir: KEPPENDUR.

7. þing Kraftlyftingasambands Íslands

Sunnudaginn 26.febrúar nk fer fram 7.ársþing KRAFT. Öll starfandi félög eiga rétt til þingsetu og hafa fengið send kjörbréf, en fjöldi fulltrúa miðast við fjölda skráðra iðkenda.

Á þinginu fara fram venjuleg aðalfundastörf og stjórnarkjör. Kosinn verður nýr formaður og gefur Hulda Elsa Björgvinsdóttir kost á sér í það embætti.

Á þinginu verða líka afhentar viðurkenningar til félaga og einstaklinga fyrir afrek á liðnu ári og heiðursmerki sambandsins verður veitt í annað sinn.

Gögn:

Ársreikningur 2016
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2017

Byrjenda- og lágmarkamót – skráning hafin

Byrjenda- og lágmarkamót fer fram þann 4. mars í tengslum við dómarapróf. Að þessu sinni er mótið haldið í Íþróttamiðstöð Njarðvíkur undir mótsstjórn UMFN Massa. Félög hafa frest til miðnættis laugardaginn 11. febrúar til að senda inn skráningar keppenda. Viku seinna, laugardaginn 18. febrúar, þurfa félög að hafa gengið frá greiðslu keppnisgjalda.

Skráningareyðublað: (doc)

Dómarapróf – skráning

Próf til dómararéttinda fer fram í tengslum við Byrjenda/lágmarksmótið 4.mars nk. Skráning í tölvupósti til kraft@kraft.is með afrit á helgi@felagsbustadir.is sem fyrst. Takið fram nafn, kennitölu, félag og netfang. Prófgjald er 10.000 kr.

Hámarksfjöldi í prófið fer eftir fjölda skráninga á mótið, en verða aldrei fleiri en 6.
Ef fleiri sækjast eftir þátttöku verður þess gætt að sem flest félög komi a.m.k. einum manni að.

Úrslit Reykjavík International Games 2017

Heildarúrslit WOW Reykjavík International Games 2017 eru komin á vefinn! Samantekt frá mótinu verður svo sýnd á RÚV kl. 22:20 í kvöld.

Í kvennaflokki sigraði Kimberly Walford löndu sína Jennifer Thompson örugglega, með 533,52 Wilks-stig. Kimberly lyfti samtals 535,5 kg og sló m.a. eigið heimsmet í réttstöðulyftu, 243 kg í 72 kg fl!

Karlaflokkinn sigraði Finninn Sami Nieminen með 483,20 Wilks-stigum, rúmum 13 stigum meira en Ármenningurinn Júlían J.K. Jóhannsson sem hafnaði í öðru sæti.

Andinn virðist hafa verið með mönnum í höllinni því tveir keppendur til viðbótar við Kimberly settu heimsmet og tveir aðrir tveir settu Evrópumet. Júlían sló Evrópumetið í +120 kg fl. í réttstöðulyftu þegar hann lyfti 365 kg; Hin efnilega Sóley Jónsdóttir frá Akureyri sló Evrópumet stúlkna (U18) í +84 kg fl. í hnébeygju þegar hún lyfti 170 kg; Hin breska Joy Nnamani bætti heimsmetið í 57 kg fl. um 0,5 kg þegar hún lyfti 190,5 kg. Ofurbekkpressarinn frá Bandaríkjunum, Jennifer Thompson, sló svo heimsmet í öllum tilraunum sínum á bekknum. Hún endaði á því að lyfta 144 kg sem er heimsmet í 72 kg fl. í bekkpressu í þríþraut og í bekkpressu sem stakri grein!

Úrslit í kvennaflokki:

# Name Team W.Class B.Weight RESULT W.Points
Open
1 Walford Kimberly United States -72kg 69,85 535,5 533,52
2 Thompson Jennifer United States -72kg 63,15 471,5 505,45
3 Nnamani Joy Great Britain -57kg 55,80 415,5 490,25
4 Sigurdardottir Ragnheidur Kr. Iceland -57kg 56,20 352,5 413,59
5 Arnadottir Arnhildur Anna Iceland -72kg 70,95 405,0 399,21
6 Becker Birgit Ros Iceland -72kg 71,25 395,0 388,25
7 Jonsdottir Soley Margret Iceland 84+kg 96,65 417,5 351,33
8 Gudlaugsdottir Alexandra Iceland -84kg 72,20 337,5 328,79
9 Birgisdottir Rosa Iceland 84+kg 136,55 420,0 328,10

Úrslit í karlaflokki:

# Name Team W.Class B.Weight RESULT W.Points
Open
1 Nieminen Sami Finland -74kg 73,35 667,5 483,20
2 Johannsson Julian J.K. Iceland 120+kg 164,00 860,0 469,73
3 Samuelsson Viktor Iceland -120kg 118,95 807,5 465,20
4 Gudnason Einar Orn Iceland -105kg 104,45 737,5 441,54
5 Gulyas Adam Ferenc Hungary -120kg 108,30 715,0 422,85
6 Fridriksson Ingvi Orn Iceland -105kg 102,10 657,5 396,93
7 Georgsson Aron Fridrik Iceland -120kg 117,95 667,5 385,35

Fyrir alla sem starfa í íþróttahreyfingunni

Tvær ráðstefnur eru haldnar í tengslum við RIG 2017
Toppfólk kemur til landsins og flytja mál sem á erindi við alla sem starfa í íþrótthreyfingunni.

http://rig.is/index.php/radstefna

Fimmtudaginn 26.janúar: Lyfjamál í íþróttum.
Heimsþekktir íþróttamenn og sérfræðingar segja frá,
http://rig.is/index.php/radstefna

Fimmtudaginn 2.febrúar: Góðir stjórnunarhættir
Sagt frá ævintýrilegum vexti og uppgangi breska fimleikasambandsins á undanförnum árum. Hvernig fóru menn að?

Fanney Hauksdóttir – Íþróttakona Seltjarnarness 2016

Fanney Hauksdóttir ásamt Nökkva Gunnarssyni, íþróttakarli Seltjarnarness.

Fanney Hauksdóttir ásamt Nökkva Gunnarssyni, íþróttakarli Seltjarnarness.

Kraftlyftingakona ársins, Fanney Hauksdóttir, var var s.l. þriðjudag kjörin Íþróttakona Seltjarnarnes 2016 að viðstöddu fjölmenni í Félagsheimili Seltjarnarness. Þetta er í þriðja sinn sem hún hlýtur þennan heiður.

Fanney, sem keppir í -63 kg fl., sérhæfir sig í bekkpressu og hefur átt frábæru gengi að fagna á síðustu árum. Af hennar mörgu afrekum á síðasta ári ber helst að hún varð heimsmeistari í klassískri bekkpressu og Evrópumeistari í bekkpressu. Þar að auki vann hún til silfurverðlauna á HM í bekkpressu, setti Norðulandamet í bekkpressu og lauk árinu í þriðja sæti á heimslistanum í bekkpressu.

Við óskum Fanneyju til hamingju með titilinn!

Viktor Samúelsson – Íþróttakarl Akureyrar 2016

Viktor Samuelsson, íþróttakarl Akureyrar, og móðir Bryndísar Rún Hansen, íþróttakonu Akureyrar.

Viktor Samuelsson, íþróttakarl Akureyrar, ásamt móður Bryndísar Rúnar Hansen, íþróttakonu Akureyrar.

Kraftlyftingamaðurinn Viktor Samúelsson hefur verið kjörinn íþróttakarl Akureyrar 2016. Kjörinu var lýst í gærkvöldi við veglega athöfn í hófi á vegum ÍBA og Frístundaráðs Akureryrar sem haldið var í Hofi. Þetta er í fyrsta sinn sem kjör íþróttamanns Akureyrar er kynjaskipt, en á síðasta ári var Viktor kjörinn íþróttamaður Akureyrar.

Árið 2016 var hans síðasta í unglingaflokki. Hann hefur átt frábært keppnisár innanlands sem utan bæði í unglingaflokki og opnum flokki. Á árinu sló hann ótal Íslandsmet og nokkur Norðurlandamet. Af afrekum Viktors má helst nefna gullverðlaun á EM U23 í bekkpressu, silfurverðlaun á HM U23 í bekkpressu, bronsverðlaun á HM U23 í kraftlyftingum, sjötta sætið á HM í opnum flokki og áttunda sæti á heimslistanum í -120 kg fl.

Við óskum Viktori til hamingju með þennan mikla heiður!

Kraftlyftingaþing 2017

7. þing Kraftlyftingasambands Íslands verður haldið sunnudaginn 26. febrúar 2017. Þingið fer fram í húsi ÍSÍ Engjavegi 6 og hefst kl. 13.00.

Málefni sem aðildarfélög eða sambandsaðilar óska eftir að tekin verði fyrir á þinginu skulu tilkynnt stjórn KRAFT eigi síðar en 21 dögum fyrir þingið, skv. 10.gr. laga KRAFT.
Rétt til þingsetu hafa fulltrúar aðildarfélaga miðað við fjölda iðkenda og fulltrúar sambandsaðila skv. 9. gr. laga KRAFT.
Rétt til þingsetu með málfrelsi og tillögurétt hafa auk þess stjórn KRAFT, endurskoðendur reikninga KRAFT, framkvæmdastjórn og framkvæmdastjóri ÍSÍ, nefndarmenn fastanefnda KRAFT og fulltrúi menntamálaráðuneytisins. Nánari dagskrá verður birt í síðar.

Dagfinnur Ari Normann – Íþróttakarl Garðabæjar 2016.

dagfinnurDagfinnur Ari Normann hefur verið valinn íþróttakarl Garðabæjar en hann veitti viðurkenningunni viðtöku við hátíðlega athöfn í Ásgarði. Dagfinnur sem var að keppa á sínu síðasta ári sem unglingur, átti gott kraftlyftingaár. Hann hreppti á árinu þriðja sætið á Norðurlandamóti unglinga í klassískum kraftlyftingum og varð í öðru sæti í unglingaflokki á Evrópumótinu í bekkpressu. Á heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum náði hann jafnframt góðum árangri, sér í lagi í bekkpressunni. Á innanlandsvettvangi varð Dagfinnur bikarmeistari í kraftlyftingum og íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum, ásamt því að setja fjölmörg íslandsmet, bæði í unglinga- og opnum flokki.

Innilega til hamingju, Dagfinnur!