HM: Júlían með gull og Evrópumet unglinga í réttstöðu!

JK með gull í réttstöðulyftu á HM 2016Júlían J. K. Jóhannsson hefur nú lokið keppni á Heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum. Mótið er hans fyrsta í opnum aldursflokki. Hann hafnaði í fimmta sæti með 1070 kg í samanlögðum árangri og náði gullverðlaunum í réttstöðulyftu með því að lyfta 380 kg, sem er nýtt Evrópumet unglinga, Norðurlandamet unglinga sem og Íslandsmet í opnum aldursflokki.

Í hnébeygju beygði Júlían 385 kg í fyrstu tilraun en mistókst svo tvívegis með 405 kg, sem hefði verið 5 kg bæting á hans besta árangri. Í bekkpressu lyfti hann 305 kg í annarri tilraun, en fékk 315 kg í þriðju ógilda á tæknigalla. Réttstaðan er svo besta grein Júlíans. Þar fór hann létt með 340 kg í fyrstu tilraun, tók svo Evrópumet unglinga með 380 kg í annarri tilraun og átti að lokum heiðarlega tilraun við Heimsmet unglinga, 390 kg, sem hann rétt missti. Með 380 kg réttstöðulyftunni tryggði Júlían sér gullverðlaun í greininni. Samanlagður árangur hans, 1070 kg, landaði honum fimmta sætinu í flokkum, sem verður að teljast frábær árangur á hans fyrsta alþjóðlega stórmóti í opnum aldursflokki. Sigurvegari flokksins var Bandaríkjamaðurinn Blaine Sumner, sem lyfti 1200 kg samanlagt.

Við óskum Júlíani til hamingju með verðlaunin og frábæra innkomu í flokk fullorðinna!

Heildarúrslit

HM: Júlían keppir kl. 17:30

Júlían stendur undir borða á HM 2016Í dag mun Júlían J. K. Jóhannsson stíga á pallinn í Orlando í Bandaríkjunum, þar sem nú stendur yfir HM í kraftlyftingum. Þar kemur hann til með að etja kappi við þá allra sterkustu í yfirþungavigtinni, í fyrsta sinn í opnum aldursflokki. Keppni í yfirþungavigtinni hefst kl. 17:30 og verður keppnin að sjálfsögðu í beinni á netinu.

Júlían er ríkjandi heimsmeistari unglinga í sínum flokki og á stigum. Þá titla hlaut hann á HM unglinga fyrir nokkrum mánuðum í Póllandi, þar sem hann lyfti 1080 kg í samanlögðum árangri. Júlían hefur æft stíft og átt farsælan feril í flokki drengja og unglinga. Hann hefur því alla burði til að eiga góða innkomu á alþjóðlega sviðinu í opnum aldursflokki og ná að raða sér ofarlega á stigatöfluna.

Viktor í 6. sæti á sínu fyrsta HM

Viktor og Grétar Skúli á HM 2016Viktor Samúelsson hefur lokið keppni á HM í kraftlyftingum. Þetta er í fyrsta sinn sem Viktor keppir á HM í opnum aldursflokki, en áður hefur hann keppt í drengja- og unglingaflokki með góðum árangri. Hann átti mjög sannfærandi innkomu í flokk fullorðinna, náði sjötta sæti með 1000 kg í samanlögðu ásamt því að slá Norðurlandamet í opnum flokki og fjögur Norðurlandamet unglinga að auki.

Mótið byrjaði, og endaði, vel hjá Viktori. Í hnébeygju bætti hann Íslandsmet Auðuns Jónssonar um 10 kg setti um leið Norðurlandamet unglinga með því að lyfta 375 kg í þriðju tilraun. Í bekkpressu tvíbætti Viktor Norðurlandametið í opnum flokki (og unglingaflokki) með því að lyfta 300 kg í fyrstu tilraun og 307,5 kg í þriðju tilraun eftir að hafa mistekist í annarri tilraun. Í réttstöðu tókst honum svo að lyfta 317,5 kg í annarri tilraun. Samanlagður árangur hans var því 1000 kg, sem er bæting á hans eigin Norðurlandameti í unglingaflokki og landaði honum sjötta sætinu í flokknum á eftir Tékkanum Tomas Sarik sem einnig tók 1000 kg, en sá var léttari að líkamsþyngd. Sigurvegarinn var Úkraínumaðurinn Oleksiy Bychkov, sem bætti heimsmetið með 1125 kg í samanlögðum árangri.

Bekkpressan telst einnig met unglinga í bekkpressu sem stakri grein og sló Viktor því samanlagt 5 Norðurlandamet, fjögur í unglingaflokki og eitt í opnum aldursflokki. Við óskum Viktori til hamingju með metin og frábæra innkomu á svið fullorðinna í kraftlyftingum!

Heildarúrslit

HM: Viktor keppir í kvöld

hmu2016viktorsamViktor Samúelsson mun í kvöld keppa á sínu fyrsta Heimsmeistaramóti í opnum aldursflokki, sem stendur yfir þessa vikuna í Orlando, Florida í Bandaríkjunum. Keppni í flokki Viktors, 120 kg fl., hefst kl. 22:00 að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu á Goodlift-síðunni.

Viktor er að koma ferskur upp úr unglingaflokki. Í september sl. keppti hann á sínu síðasta alþjóðamóti í þeim aldursflokki. Þar náði hann mjög góðum árangri í sterkum flokki, með bronsverðlaun í samanlögðum árangri. Sá árangur og sú vinna sem hann hefur lagt á sig verður honum vonandi gott veganesti í keppni í opnum aldursflokki á alþjóðasviði.

Á morgun, laugardag, kl. 17:30 mun svo Júlían J.K. Jóhannsson keppa í +120 kg fl.

Helga með íslandsmet í bekkpressu á HM í kraftlyftingum.

helga-hnebeygja185kgHelga Guðmundsdóttir hefur lokið keppni á HM í kraftlyftingum, en þetta var hennar annað heimsmeistaramót á ferlinum. Helga sem hefur fært sig upp um þyngdarflokk, keppti nú í 72 kg flokki og mætti öllum sterkustu konunum í þessum flokki. Mótið byrjaði erfiðlega hjá henni því hún fékk ekki gildar tvær fyrstu lyfturnar í hnébeygju, þar sem hún reyndi við 185 kg. Í þriðju tilraun gekk þó allt upp og hún náði að lyfta þyngdinni. Helga mætti svo tvíefld til leiks í bekkpressuna sem gekk mjög vel hjá henni. Náði hún að tvíbæta eigið íslandsmet en samtals bætti hún það um um 5 kg. Lyfti hún 132,5 kg í annarri tilraun og gerði svo gott betur í síðustu lyftunni og náði að pressa 135 kg. Í réttstöðulyftu náði hún svo að lyfta 182,5 kg sem var jöfnun á hennar besta árangri. Samanlagður árangur hennar var því 502,5 kg sem var persónuleg bæting og gaf henni 12. sætið í flokknum. Sigurvegari var Ana Rosa Castellain frá Brasilíu með 638 kg í samanlögðum árangri. Við óskum Helgu til hamingju með árangurinn og glæsilegt íslandsmet.
Nánari úrslit

HM: Helga keppir í dag

Merki HM 2016Heimsmeistaramótið í kraftlyftingum stendur nú yfir í Orlando, Florida í Bandaríkjunum. Þar munu þrír Íslendingar keppa og fyrst á pall er Helga Guðmundsdóttir, sem keppir kl. 17:00 í dag. Þetta er annað heimsmeistaramót Helgu, en í fyrra hafnaði hún í sjöunda sæti í 63 kg fl. Þetta árið færir hún sig upp um þyngdarflokk og keppir að þessu sinni í 72 kg fl.

Á morgun kl. 22:00 keppir svo Viktor Samúelsson, og á laugardaginn kl. 17:30 keppir Júlían J.K. Jóhannsson.

Bein útsending

HM hófst í dag

Merki HM 2016Heimsmeistaramótið í kraftlyftingum er að þessu sinni haldið í Orlando, Florida í Bandaríkunum. Mótið hófst í dag með keppni í léttustu flokkum kvenna og karla og lýkur nk. laugardag, 19. nóvember, með keppni í yfirþungavigt karla.

Meðal keppenda eru þrír Íslendingar; Helga Guðmundsdóttir (72 kg fl.), Viktor Samúelsson (120 kg fl.) og Júlían J.K. Jóhannsson (+120 kg fl.)

Helga er í 72 kg flokki og keppir á fimmtudaginn kl. 17:00 að íslenskum tíma (12:00 að staðartíma), Viktor er í 120 kg flokki og keppir kl. 22:00 að íslenskum tíma á föstudaginn og að lokum keppir Júlían í +120 kg flokki kl. 17:30 á laugardaginn.

Bein útsending
Keppendalistar: Konur, Karlar

Hulda og Einar Örn stigahæst á Bikarmótinu í kraftlyftingum.

Bikarmótið í kraftlyftingum fór fram í dag en mótið var í umsjá Lyftingafélags Hafnarfjarðar. Tuttugu og tveir keppendur mættu til leiks frá sjö félögum, sem komu víðs vegar af landinu. Fjölmörg íslandsmet voru slegin, bæði í opnum og aldurstengdum flokkum. Hulda B. Waage úr KFA setti nýtt íslandsmet í hnébeygju í -84 kg flokki með 205 kg lyftu og Sóley Jónsdóttir +84 kg, einnig úr KFA, raðaði niður fjölmörgum íslandsmetum í flokki unglinga, bæði í14-18 og 18-23 ára. Strákarnir voru líka iðnir við að bæta íslandsmetin. Einar Örn Guðnason úr Kraftlyftingafélagi Akraness setti íslandsmet í hnébeygju, bekkpressu og samanlögðum árangri í -105 kg flokki og Stjörnumaðurinn Dagfinnur Ari Normann bætti unglingametin í hnébeygju og bekkpressu í -83 kg flokki en bekkpressan var jafnframt met í opnum flokki. Þá setti Aron Ingi Gautason KFA íslandsmet í hnébeygju -74 kg flokki þegar hann lyfti 232,5 kg.

Stigahæsta konan var Hulda B. Waage úr KFA en samanlagður árangur hennar var 500 kg sem gaf henni 468,5 Wilksstig. Stigahæstur í karlaflokki var Einar Örn Guðnason á nýju íslandsmeti með 875,5 kg í samnlögðum árangri, en fyrir það fékk hann 524,6 Wilksstig. Í liðakeppninni var það svo Kraftlyftingafélag Akureyrar sem átti stigahæstu liðin, bæði í karla- og kvennaflokki.
Nánari úrslit

Bikarmót – tímaplan

Bikarmót KRAFT fer fram laugardaginn 5.nóvember í umsjón Lyftingafélags Hafnarfjarðar.
Mótið er haldið í húsakynnum CrossFit Hafnarfjörður að Hvaleyrarbraut 41 og hefst kl. 11.00

Vigtun hefst kl. 09.00 hjá öllum keppendum
Skipt er í tvö holl
Holl 1: allar konur og karlar 59 -74
Holl 2: karlar 83 – 120+

KEPPENDUR

Dómarar:
Holl 1: Helgi Hauksson, Aron Teitsson, Hulda Elsa Björgvinsdóttir
Holl 2: Helgi Hauksson, Aron Teitsson, María Guðsteinsdóttir.